Skýrslan var unnin að beiðni velferðarráðuneytis í samstarfi við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu. Segir í skýrslunni að betur þurfi að huga að vinnuframlagi starfsfólks og finna leiðir til þess að breyta þeirri séríslensku menningu sem felst í að vinna langan vinnudag.
Skýrslan byggir á 24. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem segir að nauðsynlegt sé að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Þórður Kristinsson, formaður vinnuhópsins, segir að málaflokkurinn varði afar marga. „Þetta er mikilvægt mál og skýrslan á að gera málaflokkinn aðgengilegan fyrir sem flesta.“ segir Þórður og bendir á að stytting vinnuvikunnar sé eitt af því sem vert sé að skoða í þessu samhengi. „Það gefur augaleið að því minna sem fólk vinnur, því meiri tíma hefur það með fjölskyldunni en um er að ræða stórt og umfangsmikið mál og því er vert að skoða það sérstaklega.“