Innlent

Bono eyðir áramótunum á Íslandi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Bono, söngvari U2, mun eyða áramótunum á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni og vinum. Hann lenti með einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli á fjórða tímanum í dag eftir flug frá Dublin.

Að sögn Kára Sturlusonar tónleikahaldara þá mun Bono og fjölskylda líklega halda aftur af landi brott á morgun. Það er þó óvíst og gæti vel farið svo að dvöl tónlistarmannsins verði lengri.

Vísir var á Reykjavíkurflugvelli í dag þegar Bono kom til landsins. Hann gaf ekki færi á viðtali en veifaði til fréttamanns og tökumanns Stöðvar 2. Með í för var Íslandsvinurinn og tónlistarmaðurinn Damien Rice.

Bono eða Paul David Hewson sem hann heitir réttu nafni, er söngvari hljómsveitarinnar U2 sem er ein þekktasta hljómsveit heims. Ekki er vitað til þess að Bono hafi áður komið til Íslands. U2 hefur gefið frá sér 12 hljóðsversplötur á ferlinum og á sveitin sér marga aðdáendur á Íslandi. Hljómsveitin U2 var stofnuð árið 1976 og kom fyrsta plata sveitarinnar út árið 1980 sem fékk nafnið Boy. Síðasta plata sveitarinnar kom út árið 2009.

Bono er 53 ára gamall og með í för er eiginkona hans, Alison Hewson, og öll fjögur börn þeirra. Tengdaforeldrar Bono eru einnig með í för. Mikill vinskapur er milli Bono og Damien Rice. Þeir eru báðir Írar. Bono og fylgdarlið dvelur á hóteli í Reykjavík yfir áramót en samkvæmt heimildum Vísis þá hefur hópurinn einnig í hyggju að bregða sér út fyrir borgarmörkin og skoða íslenska náttúru.

Bono lenti á Reykjavíkurflugvelli á fjórða tímanum. Hann mun eyða áramótunum á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni og vinum.Mynd/JóhannFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.