Innlent

Alþingi tilbúið að stöðva borgina í flugvallarmáli

Kristján Már Unnarsson skrifar
Alþingi mun taka fram fyrir hendurnar á borginni í flugvallarmálinu, ef þurfa þykir. Þetta segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, í viðtali í fréttum Stöðvar 2, en hann telur að engin sátt verði um annað en flugvöll áfram í Vatnsmýri.

Reykjavíkurborg auglýsti í dag nýtt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir að flugvöllurinn byrji strax að víkja og að honum verði endanlega lokað árið 2024. Borgarráð leyfði reyndar að byggð yrði bráðabirgðaflugstöð austan við afgreiðslu Flugfélags Íslands en gegn því að unnt verði að fjarlægja hana eftir rúman áratug. Hins vegar þarf allt einka-, æfinga- og kennsluflug að fara árið 2015, eftir rúmt ár.

Jón Gunnarsson alþingismaður segir alveg ljóst að ekki sé vilji fyrir því á Alþingi að hróflað verði við starfsemi flugvallarins nema búið sé að leysa málið með öðrum hætti. Það gildi einnig um æfinga- og kennsluflugið.

Jón segir að sátt muni ekki nást um annað en að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri sem fullnægi samgönguþörfum landsins og með sómasamlegri aðstöðu. Hann segir fjárlaganefnd Alþingis þegar hafa talað skýrt með því að fella heimild um sölu flugvallarlands út úr fjárlögum og útilokar ekki frekara inngrip þingsins.

„Ég hef áður lagt fram bæði þingsályktunartillögu og lagafrumvarp á þinginu þar sem við í raun tökum fram fyrir hendurnar á borginni í þessu máli.”

Hann kveðst þó trúa því að unnt verði að leysa þetta mál í sátt.

„En ef sú sátt gengur ekki eftir þá auðvitað þarf Alþingi að grípa til sinna ráða í þeim efnum vegna þess að ég tel að vilji Alþingis, og stórs meirihluta þar, sé algerlega skýr í þessu máli varðandi starfsemi Reykjavíkurflugvallar.”


Tengdar fréttir

Lokun Reykjavíkurflugvallar auglýst í dagblöðum í dag

Nýtt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar, sem gerir ráð fyrir lokun minnstu brautarinnar strax og endanlegri lokun flugvallarins eftir tíu ár, er auglýst í dagblöðum í dag, í samræmi við samþykkt borgarráðs frá því á fimmtudag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.