Innlent

Íbúi í stigagangi byssumannsins ánægður með lögregluna

Fanney Birna Jónsdóttir og Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Lögreglan vakti Gísla um fjögur til að rýma stigaganginn.
Lögreglan vakti Gísla um fjögur til að rýma stigaganginn. Mynd/Stefán
Íbúi í stigagangi Sævarrs Rafns Jónassonar var vakinn af lögreglu til að yfirgefa húsið um fjögur leytið aðfararnótt mánudagsins.

„Lögreglan kom og vakti mig og það var farið með okkur í kirkjuna og rætt við okkur þar,“ segir Gísli Auðunsson, nágranni Sævars. Allur stigagangurinn var rýmdur í gær og farið með íbúa í Árbæjarkirkju þar sem þeir fengu áfallahjálp frá prestinum og teymi frá Rauða krossinum.

Hann segir lögreglu hafa frætt íbúa stigagangsins um framgang mála, en þeim hafi ekki verið hleypt heim í íbúðir sínar fyrr en síðar.

„Við fengum ekkert að koma hérna fyrr en seint í gærkvöldi og hér er lögregla á vakt á ganginum. Eins og þú sérð að þá er búið að þurrka blóðið en ekkert búið að þrífa. Það var náttúrulega blóð úti um allt,“ segir Gísli.

Hann átti að mæta í skýrslutöku hjá lögreglunni í gær en gat ekki mætt.

„Ég var náttúrulega bíllaus þar sem þeir héldu bílnum mínum,“ segir Gísli og meinar þá að lögreglan hafi lokað bílastæðinu fyrir utan Hraunbæ þar sem stæðið er hluti af vettvangi sem þarf að rannsaka.

Gísli er ánægður með viðbrögð lögreglunnar.

„Það er ekkert í þessu að gera, þetta er náttúrulega bara eitthvað sem enginn ræður við. Það er ekkert við lögregluna að sakast, þeir hafa staðið sig ágætlega,“ segir Gísli að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×