Innlent

Ísland langt á eftir öðrum þjóðum í netöryggi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi Umhverfis- og samgöngunefndar í morgun.
Frá fundi Umhverfis- og samgöngunefndar í morgun. Mynd/GVA
Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun kom fram kom að Íslendingar ættu að búa sig undir að álíka netárásir, og sú sem gerð var á Vodadone um helgina, myndu eiga sér stað alloft. Ósennilegt væri að svona lagað myndi ekki gerast aftur. Á fundinum var rætt um persónuupplýsingar hjá fjarskiptafyrirtækjum og um netöryggi hér á landi.

Fram kom að fræðileg vernd netkerfa snúi í raun að því hve lengi þú getur varið kerfið, ekki hvort þú getir varið kerfið. Hversu vel þú sért á verði og hve slóttugir eru þeir sem reyna að brjótast inn. Þetta væri ekki spurning um af eða á.

Samanborið við önnur lönd væri ekki sama hefð hér á landi um netöryggi, í flestum öðrum löndum væri það innbyggt í heri og leyniþjónustur ríkja. Fram kom að aðeins tvö lönd í Evrópu, að Íslandi meðtöldu, hafi sérstaka löggjöf varðandi netöryggi. Annarsstaðar væri það innbyggt í aðra löggjöf.

Vaxandi glæpavandi

Í máli forsvarsmanna lögreglunnar kom fram að tölvuglæpir væru sífellt vaxandi vandi og þar væri Ísland ekki undanskilið. Sífellt yrði einfaldara fyrir einstaklinga að framkvæma netglæpi með hraðri fjölgun hugbúnaða sem notaðir eru til verknaðarins. Um vaxandi ógn er að ræða.

Tölvuglæpir væru mjög útbreidd starfsemi og sífellt væri verið að kanna veikleika og gera árásir á netkerfi allstaðar í heiminum. Á fundinum var aðstæðum á netinu lýst á þann veg, að þetta væri eins og maður væri að ganga niður Laugaveginn og tæki í alla hurðahúna sem á vegi hans yrðu. Ef hurð opnast gengur hann þar inn. Slíkt mætti margfalda með milljónum eða milljarði. Það væri alltaf verið að reyna að brjótast inn á alla vefi.

Um allskonar hópa hakkara er um að ræða og þar á meðal eru skipulögð glæpasamtök sem búa yfir gífurlegu fjármagni. Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn, sagði að full ástæða væri til þess að taka aftur upp hugmyndir Steingríms J. Sigfússonar um netlögreglu sem vakti internetið.

Nauðsynlegt er að auka viðbúnað lögreglu gagnvart tölvuglæpum, að gera viðbragðsáætlun og æfa hana og að auka öryggismeðvitund allra Íslendinga. Meira fjármagn þyrfti til verksins.

Stækka þarf netöryggissveitina

Lög um netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar voru sett í júní 2012 og tóku þau gildi ári seinna. Á fundinum var sagt að Ísland hafi byrjað fyrir aftan rásmarkið, tímalega séð, þegar kemur að netöryggi. Þrír starfsmenn eru í netöryggissveitinni og kom fram á fundinum að þeir þyrftu að vera sex.

Í Noregi starfa 280 manns í sambærilegri sveit, 800 í Svíþjóð en hennar starfssvið er töluvert umfangsmeira. Í Finnlandi eru 100 starfsmenn hjá sambærilegri stofnun og í Danmörku er fjöldinn svipaður.

Til að stíga næsta skref með netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunnar þyrfti að fjölga starfsmönnum í sex. Um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni er að ræða fyrir alla þjóðina. Netöryggi snertir hagsmuni þjóðarinnar og almennings. Á þessu þarf að taka.


Tengdar fréttir

Reyndi að brjótast inn í tölvukerfi fleiri fyrirtækja

Tölvuþrjóturinn sem braust inn hjá Vodafone aðfaranótt laugardags reyndi fyrst að brjótast inn hjá öðrum íslenskum fyrirtækjum. Getum aldrei verið fullkomlega örugg segir sérfræðingur. Íslensk fyrirtæki og stofnanir eru að verða meira meðvituð um hættuna af netárásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×