Innlent

Orðið hakkari hefur orðið klisjunni að bráð

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Ótal spurningar hafa vaknað um netöryggi Íslands, tölvuglæpi og hakkara frá því að tyrkneskur tölvuþrjótur valsaði í gegnum netvarnir Vodafone á laugardaginn. Íslenskir tölvuhakkarar sem fréttastofa ræddi við í dag segja lítið mál að brjótast inn í Stjórnarráðið og aðrar stofnanir ríkisvaldsins. Kjartan Hreinn Njálsson.

Rétt eins og Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn, benti á á fundi í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun þá er ógnin mikil og raunveruleg. Jón tók sem dæmi að kínverskur tölvuþrjótur gæti verið við hlustir á fundinum og benti um leið á tölvu nefndarformannsins.

Orðið „hakkari“ eða tölvuþrjótur er með eindæmum víðtækt og á bæði við um einstaklinga sem stunda tölvuglæpi, jafnvel í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi, og þá sem knúnir eru af réttlætiskenndinni einnig. Hér má einnig finna hakkara sem virka sem álagspróf fyrir risavaxin tölvukerfi ásamt stöku tölvuþrjóti sem hefur ekkert illt í hyggju.

En það er eitt sem sameinar þessa einstaklinga. Þeir eru sérfræðingar í þeirri tækni sem við almenningur notum daglega en höfum þó engan raunverulegan skilning á. Hakkarinn er sá sem ekki er firrtur frá tungumáli forritunarinnar.

Sjálft orðið, hakkari, hefur orðið klisjunni að bráð. Þetta er ekki hinn raunverulegi hakkari, sá hinn sami er líklega nemandi í tölvunarfærði, hámenntaður og fluggáfaður.

„Við eigum kannski langt í land til þess að standa okkur nægilega vel. Samkvæmt rannsóknum okkur voru tæp 40% fyrirtækjanna með það sem við köllum hátt áhættustig,“ sagði  Svavar Ingi Hermannsson, sérfræðingur í áhættustýringu upplýsingakerfa hjá KPMG.

Samkvæmt Hagstofu eru sextíu og þrjú þúsund fyrirtæki á skrá en aðeins hafa verið gefnar út um fjörutíu vottanir til einstaklinga sem sinna netöryggismálum. Svavar Ingi er einn af þeim, hann er reyndar þrívottaður.

„Það er mjög margt búið að gerast á undanförnum tveimur árum og netöryggi er farið á fulla ferð. Eftir nokkur ár ættum við að vera í mjög góðum málum,“ sagði Svavar Ingi Hermannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×