Innlent

Formaður sérfræðingahóps: Skuldatillögum skilað í næstu viku

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um skuldavanda heimilanna.
Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um skuldavanda heimilanna.
Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um skuldavanda heimilanna, segir að hópurinn sé nú að leggja lokahönd á tillögur varðandi niðurfærslu skulda. Hópurinn mun skila tillögum til ríkisstjórnarinnar í næstu viku.

Hópurinn var skipaður í ágústmánuði en auk Sigurðar sitja í honum Arnar Bjarnason, hagfræðingur, Einar Hugi Bjarnason, hrl, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, hdl, Lilja Alfreðsdóttir, alþjóðhagfræðingur, Sigrún Ólafsdóttir, alþjóðaviðskiptafræðingur í forsætisráðuneytinu og Sigurður Guðmundsson, skipulagsfræðingur í fjármálaráðuneytinu.

Sigurður Hannesson segir að hópurinn hafi fengið til sín fjölmarga gesti þar á meðal fulltrúa frá fjármálafyrirtækjum og Seðlabanka Íslands. „Vinna er á áætlun. Við munum skila tillögum í næstu viku,“ sagði Sigurður í samtali við fréttastofu.

Nú þegar er hafin vinna innan forsætisráðuneytisins við gerð frumvarpa í tengslum við skuldaniðurfærsluna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur ekki útilokað að hægt verði að klára þinglega meðferð málsins fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×