Innlent

Spila Sjostakovich í mótmælaskyni

Jakob Bjarnar skrifar
Víkingur Heiðar segir uppsagnirnar lamandi fréttir fyrir menningarlífið á Íslandi.
Víkingur Heiðar segir uppsagnirnar lamandi fréttir fyrir menningarlífið á Íslandi.
Gríðarlegur hiti er vegna uppsagnanna á RÚV og má meðal annars greina hann í athugasemdum við undirskriftasöfnun þar sem uppsögnunum er mótmælt.

Fjöregg þjóðarinnar

Undirskriftirnar, þar sem uppsögnum á RÚV er mótmælt, eru komnar yfir 3000 og þar gefst þeim sem skrifa undir kostur á að gera nánar grein fyrir afstöðu sinni: „Ég vil ekki búa í menningarsnauðu landi!!!!!!!!!“ skrifar Rósa Guðrún Sveinsdóttir. Einar Rafn Guðbrandsson skrifar: „RÚV er hornsteinninn í menningu okkar og menningin er eina forsendan fyrir sjálfstæði okkar!“ Og Hallur Hinriksson segir: „RÚV er eini miðillinn sem varðveitir íslenska menningu.“ Þá líst Maríu Hrönn Gunnarsdóttur ekki á blikuna: „RÚV er fjöregg þjóðarinnar.“ Og þannig má lengi telja. Fólk sparar hvergi stóru orðin og tjá sig um mikilvægi stofunarinnar.

Eyrun skorin af

Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur segir: „Rás eitt hefur verið mér vinur, kennari og sambýlingur áratugum saman. Ég vil ekki að ráðist sé svona á hana!“ Auður Jónsdóttir rithöfundur er á svipuðu róli: „Með þessu móti er verið að ræna þjóðina og valda samfélaginu ómældum skaða.“ Hallgrímur Helgason rithöfundur segir á þessum sama vettvangi: „Nú erum við farin að skera af okkur eyrun...“ Kristján Guy Burgess, fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra er alvarlegur í bragði þegar hann ritar: „Ríkisstjórnin sendir sextíu millistéttarfjölskyldur út á gaddinn rétt fyrir jól. Hef mikla samúð með góðu samstarfsfólki frá gamalli tíð. Þetta hefði ekki þurft að vera svona. Þorgrímur Gestsson er formaður hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins og hann segir: „Ríkisútvarpið, hið íslenska almannaútvarp, hefur lögbundnu hlutverki að gegna og ljóst er að verði af þessum niðurskurði getur það engan veginn uppfyllt það hlutverk.“

Harmþrungið verk Sjostakovich

Menningar- og magasínþátturinn Víðsjá á Rás 1 fellir niður hefðbundna dagskrá í dag. Þorgerður E. Sigurðardóttir „útvarpstýpa“, eins og hún titlar sig, tilkynnir um þetta á Facebooksíðu sinni: „Í útsendingartíma Víðsjár í dag verður send út fimmta sinfónía Sjostakovich í flutningi SInfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Tónmeistari er Bjarni Rúnar Bjarnason og hljóðmeistari Egill Jóhannsson.“

Víst er að klassíska geiranum lýst ekki á blikuna og það má sjá á orðum Víkings Heiðars Ólafssonar píanista þar sem hann gerir grein fyrir undirskrift sinni við mótmælum vegna uppsagnanna: „Það er auðséð að RÚV verður ekki svipur hjá sjón eftir þennan dag. Skalinn á þessum uppsögnum er hrikalegur. Þetta eru lamandi fréttir fyrir menningarlífið á Íslandi.“

Afmælishátíð Rásar 2 í uppnámi

Margrét Blöndal útvarpskona var í viðtali í sjónvarpsþættinum Kastljósi í gærkvöldi, hjá Sigmari Guðmundssyni, og kynnti þar viðamikla afmælisdagskrá Rásar 2. Hún hefst á morgun og til stendur að blása til mikils fagnaðar með gömlum fyrrum starfsmönnum Rásar 2. Hætt er við að fréttir dagsins, er varða uppsagnirnar, munu slá á fögnuðinn. Magnús Einarsson, dagskrárstjóri útvarps, sagðist ekkert geta tjáð sig um gang mála í morgun, þegar Vísir falaðist eftir viðtali við hann. Svo er reyndar um fjölmarga starfsmenn Rásar 2 og ljóst er að uppsagnirnar leggjast þungt á starfsmenn, sem og vini og velunnara stofnunarinnar.


Tengdar fréttir

Sálfræðiþjónusta fyrir starfsmenn RÚV

Hallgrímur Indriðason, formaður Félags fréttamanna, segir að andrúmsloftið á RÚV sé lamað eftir að tilkynnt var um uppsagnirnar í morgun.

Margrét Erla Maack fær uppsagnarbréf

Sannkölluðu jarðarfararstemmning ríkir nú í útvarpshúsinu við Efstaleiti. Straumur fólks er upp á 5. hæð þar sem starfsmenn taka á móti uppsagnarbréfi.

Adolf Ingi meðal þeirra sem sagt er upp

Ríkisútvarpið hefur boðað til mikilla uppsagna og eru starfsmenn boðaðir einn og einn í senn uppá 5. hæð til að taka á móti uppsagnarbréfi sínu.

Starfsmönnum fækkað um 60 hjá RÚV - 39 sagt upp í dag

Ríkisútvarpið ætlar að skera niður um fimmhundruð milljónir króna og fækka starfsmönnum um sextíu. Þrjátíu og níu uppsagnir koma nú þegar til framkvæmda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.

Linda Blöndal og Jóhannes Kr. fara

Enn bætist í hóp þeirra sem sagt hefur verið upp á Ríkisútvarpinu. Undirskriftasöfnun þar sem uppsögnum er mótmælt hefur verið stofnuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×