Innlent

Dæmt á morgun í máli íslensku stúlknanna

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/365
Dómur verður kveðinn upp á morgun í máli tveggja 19 ára íslenskra stúlkna sem handteknar voru í Tékklandi fyrir rúmu ári síðan. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var ákæra á hendur stúlkunum birt fyrir síðustu helgi, en þær eru ákærðar fyrir að hafa flutt rúm þrjú kíló af kókaíni til landsins.

Stúlkurnar voru handteknar á Vaclav Havel-flugvellinum í Prag, höfuðborg Tékklands, 7. nóvember í fyrra. Þær voru að koma frá Sao Paulo í Brasilíu en höfðu millilent í München í Þýskalandi.

Þær hafa setið í gæsluvarðhaldi í Tékklandi frá því málið komst upp.

Vitnaleiðslur fóru fram í málinu í Prag í dag og verður dómur kveðinn upp á morgun. Kókaínið, sem var mjög hreint, var vandlega falið í fóðri tösku og kom fram í fyrstu fréttum að handtakan væri afrakstur samvinnu tékkneskra og þýskra yfirvalda.

Eins og fram hefur komið á Vísi eru hörð viðurlög við smygli af þessu tagi í Tékklandi og í fyrra kom fram í þarlendum fjölmiðlum að stúlkurnar gætu átt yfir höfði sér tíu til átján ára langt fangelsi. Faðir annarrar stúlkunnar sagði í samtali við Vísi í sumar að hann hefði enga tilfinningu fyrir því hversu þungan dóm þær munu fá í ljósi þess hversu litlar upplýsingar hafa borist til fjölskyldunnar, en eina sem hægt sé að gera er að bíða og vona það besta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×