Innlent

Femínistafélagið hrósar leikfangaverslun

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Í nýjum bæklingi frá Toys r US má sjá stelpur og stráka leika sér saman í bílaleik og í barbí. Bæði kynin sjást leika sér með smíðasett og eldhúsdót og með dúkkur og risaeðlur, án þess að þessi leikföng séu sérstaklega ætluð öðru kyninu.

Femínistafélag Íslands hrósar leikfangafyrirtækinu fyrir  nýja bæklinginn sinn sem hefur farið víða. Í tilkynningu frá félaginu segir: „Það er Femínistafélagi Íslands bæði ljúft og skylt að hrósa því þegar jafnréttissjónarmið eru höfð til hliðsjónar í starfsemi aðila sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif.“

Ástæða þess að Femínistafélagið telur ástæðu til að hrósa fyrirtækinu er sú að í auglýsingaefninu í bæklingnum er gerð tilraun til þess að brjóta upp kynjaðar staðalímyndir um áhugasvið barna

„Það er mjög ánægjulegt að sjá að staðalímyndir eru lagðar til hliðar og áhersla lögð á að börn geti leikið sér með hvaða leikföng sem þeim finnst skemmtileg, óháð kyni,“ segir í tilkynningunni.

Femínistafélag Íslands vill nota þetta tækifæri og hvetja foreldra, forráðamenn, afa og ömmur, systkini og yfir höfuð öll þau sem að kaupa jólagjafir handa börnum um þessi jól, til þess að gera ekki börnum þann óleik að setja þau í bláa eða bleika kassa. „Við vonum að fólk leyfi sér að hugsa út fyrir rammann og gefi strákum og stelpum leikföng sem eru þroskandi og skemmtileg, burtséð frá því hvað hefur hingað til verið skilgreint sem stelpudót og strákadót.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×