„Miðað við aðstæður tel ég að markalaust jafntefli séu fín úrslit,“ sagði Rúrik Gíslason sem kom inn á sem varamaður í leiknum gegn Króatíu í kvöld.
Rúrik átti góða innkomu en Ísland hafði þá misst Ólaf Inga Skúlason af velli með rautt spjald.
„Ég kom inn á með þau skilaboð að hjálpa Birki [Bjarnasyni] í varnarhlutverkinu og tvöfalda á kantinn. Mér fannst það takast bara nokkuð vel,“ sagði Rúrik sem fagnaði því að fá tækifærið í kvöld.
„Ég hef verið á bekknum í nokkurn tíma og var því orðinn ansi þyrstur í að fá að spila,“ sagði hann og brosti.
Hann á von á erfiðari leik í Króatíu. „Heimavöllurinn skiptir miklu máli en við eigum samt okkar möguleika. Við verðum að grípa þá. Við erum bjartsýnir fyrir næsta leik.“
Rúrik hrósaði þeim tæplega tíu þúsund áhorfendum sem voru á vellinum í kvöld. „Þetta er orðið mjög flott og okkur er sýnd virðing með þessari góðu mætingu. Hér voru allir á milljón allan leikinn. Þetta var frábærlega skemmtilegt og það var gaman að taka þátt í þessu.“

