Innlent

Handtökur á Strawberries vegna gruns um vændiskaup

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Lögreglan lét til skarar skríða á kampavínsklúbbnum Strawberries við Lækjargötu í nótt og voru nokkrir gestir staðarins handteknir vegna gruns um vændiskaup.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var um umfangsmikla aðgerð að ræða og hinir handteknu yfirheyrðir en rannsóknin er sögð beinast að eigendum staðarins.

Lögregla staðfesti í samtali við fréttastofu að aðgerð hefði átt sér stað í morgun og líkt og sjá má voru dyr staðarins innsiglaðar þegar fréttastofu bar að í dag.

Lögregla vildi þó ekki veita neinar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu en kvaðst senda frá sér yfirlýsingu um málið seinna í dag.

Sú yfirlýsing hafði ekki borist nú rétt fyrir fréttir.

Heimildir fréttastofu herma jafnframt að um nokkuð umfangsmikla aðgerð hafi verið að ræða að hendi lögreglu en ekki liggur fyrir hversu margir menn voru handteknir, né hvort einhverjir þeirra eru enn í haldi.

Málefni kampavínsstaðanna hafa verið talsvert í deiglunni undanfarin misseri og tilvist þeirra hefur verið umdeild.

Björk Vilhelmsdóttir, varaþingmaður samfylkingarinnar, mælti fyrir þingsályktun um starfsemi kampavínsstaðanna fyrir tæpum tveimur vikum. En tilgangur ályktunarinnar er sá að koma í veg fyrir rekstur staða sem gera út á fáklæddar konur og sölu á þeim í einkarýmum.

Eigandi staðarins, Viðar Már Friðfinsson, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×