Innlent

"Skrítið að borgaryfirvöld eyði tíma í að ögra kristilegu fólki“

Jakob Bjarnar skrifar
Franklin Graham predikar á hátíðinni sem fór fram í Laugardalshöll.
Franklin Graham predikar á hátíðinni sem fór fram í Laugardalshöll. Mynd/Facebook-síða Graham
Mikil gleði ríkir í herbúðum þeirra sem tóku þátt í Hátíð vonar um helgina, þótt eitt og annað hafi verið gert til að skyggja á gleðina, segir Einar Jóhannes Guðnason lofgjörðarleiðtogi ungliðastarfs Fíladelfíusafnaðarins.

Hátíð vonar fór fram úr hans björtustu vonum. Yfir 2.600 manns mættu í Laugadalshöll og fylltu þannig höllina í tvígang yfir helgina. Um 350 einstaklingar gengu fram og fengu sérlega blessun predikarans Franklin Grahams.

Þrátt fyrir almenna ánægju er eitt og annað ský á himni. Mörgum finnst til dæmis sem umfjöllun fjölmiðla hafi verið afar einhliða.

„Mér persónulega finnst hún hafa verið ósanngjörn, það hefur verið ýjað að því að hann sé hommahatari sem á ekki rétt hjá sér og er alls ekki rétt. Eins og hann sagði á hátíðinni að það skiptir ekki máli hver þú ert, eða hvernig þú lifir, Jesús elskar og vill að þú fylgir sér og gefur þér allt það besta,“ segir hann.

Samtökin '78 stóðu fyrir mannréttindahátíð í Þóttaraheimilinu gegnt Laugardalshöll á sama tíma og Hátíð vonar fór fram og var lögð gangbraut við höllina í regnbogalitunum, merki samkynhneigðra.

„Það böggaði mig ekkert enda er regnboginn sáttmáli milli Guðs og manna samkvæmt Biblíunni,“ segir hann.

Finnst þér borgaryfirvöld, með því að taka afstöðu svona óbeint gegn hátíðinni, ekki vera á gráu svæði?

„Það er frekar skrítið að borgaryfirvöld séu að eyða tíma og pening í það að ögra kristilegu fólki og líka brjóta umferðarlög með því merkja gangbrautir vitlaust. Þar sem allir voru að segja: Hver var að skemma þetta listaverk fyrir okkur? En það var náttúrulega lögreglan sem tók þetta upp, ég sá það persónulega allavega í annað skiptið,“ segir hann. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.