Innlent

Stór spilasalur opnar við Lækjartorg: "Spilavíti,“ segir Ögmundur Jónasson

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Spilasalir Háspennu hafa verið starfræktir í borginni um árabil. Í dag var sá stæsti opnaður hér við lækjartorg á vegum fyrirtækisins, en kassarnir eru í eigu Háskóla Íslands.

Að sögn Bjarna Vilhjálmssonar, eiganda háspennu er nokkuð um fastakúnna en hann vonast eftir því að með nýrri staðsetningu nái hann til breiðari hóps.

Hann segir það jafnframt jákvætt að hafa starfsemina á fjölförnum stöðum í stað þess að hafa þá hulda í skúmaskotum. Spurður segir hann fyrirtækið þó ekki taka á því sérstaklega þegar að grunur leikur á um að fólk sé að misnota tækin vegna spilafíknar.

Í skýrslu sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið í fyrra fyrir árið 2011 kemur fram að um 2,5% þjóðarinnar eigi við spilavanda að stríða og var hann algengari meðal karla (4,3%) en kvenna (0,7%). Gera megi ráð fyrir að 4–7 þúsund Íslendingar á aldrinum 18–70 ára eigi í verulegum vanda.  

„Þetta eru spilavíti, sérstaklega þegar vélarnar eru samtengdar eins og gerist hjá Happdrætti Háskólans þá er það eins og kræfustu spilavítin í Las Vegas hygg ég,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, í samtali við Stöð 2 en hann er einn þeirra sem gagnrýnir starfsemi spilasala harðlega. Ögmundur mælti fyrir frumvarpi um takmarkanir á fjárhættuspilum á síðasta þingi sem ekki fór í gegn. Hann segir mikilvægt að stemma í stigu við þá þróun sem orðið hefur í spilafíkn á íslandi síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×