Innlent

Mál á hendur Sigga hakkara fellt niður - tveir aðrir grunaðir um að kúga fé út úr Nóa Síríus

Sigurður Þórðarson kom til fundar við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í febrúar til að ræða aðgerðir FBI á Íslandi sumarið 2011.
Sigurður Þórðarson kom til fundar við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í febrúar til að ræða aðgerðir FBI á Íslandi sumarið 2011. mynd/gva
Sigurður Þórðarson, eða Siggi Hakkari, eins og hann er oft nefndur verður ekki ákærður fyrir aðild sína að fjárkúgunarmáli. Þetta kemur fram í bréfi frá Ríkissaksóknara sem Sigurður hefur nú birt á Twitter-síðu sinni. Sigurður þessi komst í fréttirnar á sínum tíma þegar í ljós kom að bandarískir alríkislögreglumenn höfðu yfirheyrt hann vegna tengsla hans við Wikileaks síðuna.

Í bréfi saksóknara segir að málið snúist um tilraunir til að kúga fé út úr fyrirtækinu Nóa Síríus, í janúar og febrúar í fyrra. Ákæra verður ekki lögð fram gegn Sigurði í ljósi þess að nægilegar sannanir hafa ekki komið fram gegn honum, að því er segir í bréfinu.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari staðfesti við fréttastofu í morgun að málið gegn Sigurði hafi verið látið niður falla. Hann segir að tveir aðrir menn séu taldir aðilar að málinu, en vildi ekki tjá sig nánar um það að svo stöddu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×