Innlent

Kanna kanínuplágu í borginni

Gissur Sigurðsson skrifar
Að sögn Guðmundar B. Friðrikssonar, skrifstofustjóra umhverfisgæða borgarinnar, er ekki hægt að tala um kanínur sem stórt vandamál nema þá ef til vill í Elliðaárdalnum.
Að sögn Guðmundar B. Friðrikssonar, skrifstofustjóra umhverfisgæða borgarinnar, er ekki hægt að tala um kanínur sem stórt vandamál nema þá ef til vill í Elliðaárdalnum.
Reykjavíkurborg er nú að kanna hvort og hvar kanínur eru orðnar vandamál í borgarlandinu. Útrýmingarherferð er þó ekki alveg á döfinni, þrátt fyrir skýra umsögn Náttúrufræðistofnunar um að útrýma beri öllum kanínum í íslenskri náttúru.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur veitt Reykjavíkurborg undanþágu frá lögum til að bregðast við auknum fjölda kanína í borginni. Reykjavíkurborg samstillir nú aðgerðir með öðrum sveitarfélögum með það að markmiði að stemma stigu við útbreiðslu kanína.

Að sögn Guðmundar B. Friðrikssonar, skrifstofustjóra umhverfisgæða borgarinnar, er ekki hægt að tala um kanínur sem stórt vandamál nema þá ef til vill í Elliðaárdalnum, þar sem þeim er gefið yfir veturinn þannig að afföll verða minni en ella.

Kanínur voru líka orðnar vandamál í kirkjugarðinum í Fossvogi, þar sem þær ollu gróðurskemmdum og átu blóm af leiðum, eða þar til fækkun varð í stofninum.

Nú eru hinsvegar vísbendingar um að stofninn þar sé aftur í sókn. Þá þurfi að kanna landnám þeirra austur af borginni, eða austur af Rauðavatni og í Heiðmörk, þar sem engar hindranir eru, því annars halda þær sig á afmörkuðum svæðum í borginni.  En ef til þess kæmi að stemma stigu við fjölgun þeirra á einhverjum svæðum, yrði sennilega eina úrræðið að skjóta þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×