Erlent

Dreginn upp úr rotþró almenningssalernis

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Enslow gaf þá skýringu á hátterni sínu að kærasta sín hefði slegið sig í höfuðið með felgulykli og hent honum niður í salernið.
Enslow gaf þá skýringu á hátterni sínu að kærasta sín hefði slegið sig í höfuðið með felgulykli og hent honum niður í salernið.
Karlmaður var handtekinn í almenningsgarði í Oklahoma eftir að hann fannst ofan í rotþró almenningssalernis þar sem hann lá á gægjum.

Ambra Reynolds var með sjö ára dóttur sinni á salerninu þegar mæðgurnar komu auga á manninn þar sem hann starði á þær upp úr gatinu.

„Hann skreið þarna niður og horfði á fólk sem notaði salernið,“ segir Shannon Clark, lögreglustjóri í Tulsa.

Slökkviliðsmenn drógu manninn, hinn 52 ára Kenneth Enslow, upp úr rotþróinni. Var hann útataður mannasaur og þurfti að spúla af honum áður en farið var með hann á spítala.

Enslow gaf þá skýringu á hátterni sínu að kærasta sín hefði slegið sig í höfuðið með felgulykli og hent honum niður í salernið. Lögreglustjórinn segir enga áverka benda til þess og hefur Enslow verið sendur í geðrannsókn, en hann er ákærður fyrir blygðunarsemisbrot.

Málið fer fyrir dóm þann 15. júlí og verði Enslow sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér ársfangelsi og 5.000 dala sekt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×