Erlent

Írar lögfesta rétt til fóstureyðinga

Jóhannes Stefánsson skrifar
Fóstureyðingar eru gjarnan ólöglegar af trúarlegum eða siðferðilegum ástæðum
Fóstureyðingar eru gjarnan ólöglegar af trúarlegum eða siðferðilegum ástæðum AFP
Írska þingið lögfesti heimildir til fóstureyðingar ef móðirin er í hættu eða í sjálfsvígshugleiðingum.

Ríkisstjórn Enda Kenny náði að koma frumvarpinu um lög til verndar lífs við meðgöngu í gegnum þingið á fimmtudaginn. Þrátt fyrir hótanir um útskúfun úr kaþólsku kirkjunni komst málið í gegn eftir tveggja daga umræður á írska þinginu.

Frumvarpið var samþykkt með 127 atkvæðum gegn 31 sem þýðir að í neyðartilfellum er hægt að láta framkvæma fóstureyðingar.

Hins vegar hafa bæði þeir sem eru fylgjandi og þeir sem leggjast gegn fóstureyðingum hótað málsóknum vegna þeirra. Seinasta ár fóru um 4000 írskar konur til Bretlands til að láta framkvæma fóstureyðingu.

Nýju lögin gera ekki ráð fyrir því að fórnarlömb nauðgana geti látið eyða fóstri, og því munu írskar konur í einhverjum mæli enn þurfa að ferðast til Bretlands til að láta eyða fóstrum.

Þetta kemur fram á vef Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×