Innlent

Umhverfissóðar við Seljavallalaug

Jakob Bjarnar skrifar
Ótal örvar, gular sem skera sig úr landslaginu, hafa verið málaðar á steinvölur og er þetta æpandi í umhverfinu.
Ótal örvar, gular sem skera sig úr landslaginu, hafa verið málaðar á steinvölur og er þetta æpandi í umhverfinu. Hermann Valsson
Hermann Valsson var á ferð við Seljavallalaug nú um helgina og fór þá hvorki fram hjá honum, né öðrum ferðalöngum, að um 20 steinar höfðu verið úðaðir með sterkri gulri málningu með úðabrúsa.

"Ætlunin hefur líklega verið að merkja nýja leið frá Seljavallalaug þrátt fyrir að venjulega leiðin er mjög greinileg í rétt um 5 til 8 metra fjarlægð aðeins ofar í hlíðinni," segir Hermann.

Hermanni brá nokkuð við þetta sem og það þegar hann tók sex ferðamenn, sem voru á leið inní Seljavallalaug, tali og spurði þau um skoðun þeirra á merkingu sem þessari? Um er að ræða þrjú pör; eitt frá Þýskalandi, eitt frá Danmörk og eitt frá Frakklandi. "Þau voru öll sammála um að þetta væru "góðar merkingingar" inní og frá Seljavallalaug! En ég vil taka það skýrt fram að enginn þessara sex aðila stóð að þessu skemmdarverki."

Hermann telur deginum ljósara að bregðast verði við þessum skemmdarverkum sem og þeim sem unnin voru í Mývatnssveit í byrjun maí, og það strax. "Við verðum að fræða gesti okkar mun betur en við erum að gera að merkingar sem þessar eru ekki eins og góðir gestir eiga að framkvæma. Og einnig verðum við að bæta til muna allar merkingar til og frá öllum helstu stöðum sem gestir okkar (ferðamenn) heimsækja."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×