Innlent

Milljónaþjófnaður í Ikea

IKEA hefur lagt fram í kæru á hendur fjölmörgum aðilum sem grunaðir eru um stórfelldan þjófnað í verslun fyrirtækisins. Á meðal sakborninga eru tveir lögfræðingar og framkvæmdastjóri fyrirtækis í ferðaþjónustu. Annað mál af svipuðum toga er til rannsóknar hjá fyrirtækinu. DV greindi frá málinu í morgun.

Þar kemur fram að meintir þjófar voru kærðir til lögreglu í febrúar en grunur leikur á að brotin hafi staðið yfir frá 2007. Höfuðpaurarnir í málinu munu vera héraðsdómslögmaður og framkvæmdarstjóri fyrirtækis í ferðaþjónustu. Fólk þeim tengt mun síðan einnig hafa tekið þátt í þjófnaðinum.

Að sögn Þórarins Ævarssonar, framkvæmdarstjóra IKEA er kostnaður fyrirtæksins vegna þessa um tíu milljónir króna. Af myndbandsupptökum má sjá hinu meintu þjófa athafna sig í versluninni. Hinir grunuðu tóku strikamerki af ódýrum vörum og límdu yfir strikamerki á mun dýrari vörum. Þeim var síðan aftur skilað en nú með réttu strikamerki og þannig fékkst inneignarnóta fyrir mun hærri upphæð en upphaflega var greitt fyrir. Ekki þarf að framvísa nótu þegar vörum er skilað í IKEA en þá væri viðkomandi inneignarnótu. Að öðrum kosti er endurgreitt í beinhörðum peningum.

Grunur vaknaði hjá IKEA í nóvember 2011 að ekki væri allt með felldu þegar fjórum stólum var skilað sem sannanlega höfðu aldrei verið seldir. Upphaflega héldu yfirmenn IKEA að einn af starfsmönnum þeirra væri viðriðinn málið.

Þórarinn segir að til greina komi að breyta skilareglum fyrirtækisins en annað mál af svipuðum toga er nú rannsóknar hjá fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×