Innlent

Fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins dæmdur

Gunnar ásamt verjanda sínum.
Gunnar ásamt verjanda sínum.
Gunnar Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, var dæmdur til þess að greiða tvær milljónir króna í sekt ella sæta fangelsi í 44 daga, fyrir brot í opinberu starfi vegna alvarlegra trúnaðarbrota þegar hann lak upplýsingum um eignarhaldsfélagið Bogamanninn til DV á síðasta ári.

Starfsmaður Landsbankans, Þórarinn Már Þorbjörnsson, sem kom upplýsingunum til Gunnars, var dæmdur til þess að greiða eina milljón í sekt ella sæta fangelsi í 40 daga.

Að auki voru þeir dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna. Gunnar greiðir Guðjóni Ólafi Jónssyni rúmar 2,3 milljónir króna og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins. Þórarinn greiðir Hilmari Magnússyni tæpar 590 þúsund krónur.

Gunnar fékk starfsmann Landsbankans til að afla gagna úr bókhaldi bankans um viðskipti Bogamannsins ehf. sem hann afhenti Ársæli Valfells, en um var að ræða skjal sem sýndi að Landsbanki Íslands hf. greiddi 32.7 milljónir króna inn á bankareikning Bogamannsins ehf. 13. júní 2003.

Ársæll kom svo umræddum upplýsingum að beiðni Gunnars til fréttastjóra DV sem nýtti þær við ritun fréttar um viðskiptin sem birtist í DV 29. febrúar 2012.

Þetta gerði Gunnar í því skyni að skapa umræðu um viðskipti félagsins og eiganda þess, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, við Landsbanka Íslands hf., sem Gunnar taldi óeðlileg og vegna þess að hann hafi talið Guðlaug Þór hafa í opinberri umræðu reynt að gera hann sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins tortryggilegan sem og stofnunina sjálfa.

Gunnar átti á þessum tíma í harkalegum átökum við stjórn FME sem hafði látið kanna hæfni Gunnars sem forstjóra FME vegna fyrri starfa í bankakerfinu. Hann var svo rekinn þegar í ljós kom að hann hefði lekið upplýsingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×