Erlent

Milljón í verðlaun fyrir að upplýsa dráp á hafarnarpari í Danmörku

Veiðimaður á Fjóni hefur heitið 50.000 dönskum krónum eða vel yfir milljón króna í verðlaun til þeirra sem segja frá því hver stóð að baki eiturdrápi á hafarnarpari við Langeland síðasta vor.

Allt bendir til þess að markvisst hafi verið eitrað fyrir þessum haförnum en þeir ekki dáið fyrir slysni með því að éta bráð með eiturefnum í sér. Lögreglan á Fjóni hefur hinsvegar gefist upp á rannsókn málsins og mun ekki ákæra neinn fyrir verknaðinn.

Þessa uppgjöf lögreglunnar er Steen Larsen alls ekki sáttur við en Steen rekur aðstöðu fyrir veiðimenn á óðalssetrinu Hvidkilde Gods á Suður-Fjóni. Hann segir að það gangi yfir alla veiðimenn og skaði orðspor þeirra þegar villt dýr eða fuglar eru drepnir með eitri. Það þurfi að ná þeim fávitum sem slíkt stunda, segir hann.

Danska fuglafélagið segir að þessi háa fjárhæð beini vonandi sjónum að ólöglegum eitrunum fyrir fugla í Danmörku. Slík mál eigi lögreglan erfitt með að upplýsa og því sleppi viðkomandi lögbrjótar nær ætið við refsingu.

Eitrið sem notað var til að drepa ernina er hið hraðvirka skordýraeitur carbofuran en það er bannað í öllum ríkjum Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×