Erlent

Jöklar í Andesfjöllum bráðna hratt

MYND/AFP
Mælingar gefa til kynna að bráðnun jökla í Andesfjöllum hafi náð nýjum hæðum á síðustu árum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindatímaritinu Cryosphere, eða Freðhvolf, á dögunum en hún var framkvæmd af alþjóðlegum hópi jöklafræðinga. Nær helmingur allra jökla í Andesfjöllum var rannsakaður. Í niðurstöðunum kemur fram að jöklar í Andesfjöllunum í Suður-Ameríku hafi rýrnað verulega frá því að formlegar mælingar hófust á áttunda áratugnum.

Vitað er til þess að jöklarnir hafi hopað á hverju ári síðustu þrjár aldir en þessi mikla bráðnun undanfarið er engu að síður án fordæma. Þannig áætla jöklafræðingarnir að rýrnun þeirra á síðustu árum nemi þrjátíu til fimmtíu prósentum.

Ástæðan fyrir þessu er rakin til loftslagsbreytinga en meðalhiti á svæðinu hefur hækkað um tæpa gráðu á síðustu áratugum. Þannig hafa vísindamennirnir lýst áhyggjum sínum vegna áframhaldandi breytinga á loftslagi jarðarinnar og aðgerðarleysi stjórnvalda gegn þeim. Líkur séu á að jöklar sem sitja neðarlega í hlíðum fjallanna hverfi fyrir fullt og allt á næstu árum.

Bráðnun jöklanna kemur til með að hafa verulega áhrif á líf fólk við Andesfjöll enda eru jöklarnir helsta uppspretta ferskvatns á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×