Erlent

Pia Kjærsgaard útilokuð frá Facebook í sólarhring

Yfirmaður Facebook á Norðurlöndum hefur þurft að biðja Piu Kjærsgaard fyrrum formann Danska þjóðarflokksins afsökunar á því að Piu var hent út af samskiptavefnum í einn sólarhring.

Pia Kjærsgaard er enn danskur þingmaður þótt hún hafi gefið frá sér formannsembættið síðasta haust. Hún hefur haldið úti Facebooksíðu þar sem hún ræðir meðal annars um pólitík.

Ástæðan fyrir því að Piu var útilokuð af síðu sinni í 24 tíma var að í nýlegri færslu sagði hún að Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra Danmerkur væri bæði heimsk og auðtrúa.

Um leið og hún fékk aðgang að síðunni að nýju setti hún inn færslu um að áður hefðu forráðmenn Facebook gefið henni viðvörun. Sú viðvörun gekk út á að nýbirt mynd af heimilishundi hennar væri of klámfengin að mati Facebook.

Eftir að danskir fjölmiðlar fóru að fjalla um þetta mál barst Piu afsökunarbeiðni frá Thomas Kristensen yfirmanni Facebook á Norðurlöndunum. Þar segir Thomas að engin sé fullkominn og að starfsfólk Facebook hafi gert mistök þegar kvörtun barst um innihaldið á síðu hennar.

Pia segir að hún taki þessa afsökun fyllilega til greina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×