Erlent

Smíði Helstirnis ekki á döfinni

Rúmlega 34 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun á vef Hvíta Hússins þess efnis að ríkisstjórn Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, hefji smíði á raunverulegu Helstirni.

Röksemdafærslan grundvallast á því að smíðin myndi rétta af fjárlagahalla Bandaríkjanna, skapi milljónir starfa og efli um leið varnir landsins til muna.

Aðeins þarf 25 þúsund undirskriftir til að yfirvöld taki áskoranir til greina. Nú hefur Paul Shawcross, vísindaráðgjafi í Hvíta Húsinu, birt opinbert svar Bandaríkjastjórnar.

Shawcross bendir á að áætlaður kostnaður við smíði Helstirnisins sé 15 milljónir billjarðar. Verkefnið myndi því seint leiðrétta fjárlagahallann. Þá bendir hann á að það sé ekki stuðningur innan ríkisstjórnarinnar um að sprengja heilu pláneturnar í loft upp. Þar að auki sé lítið vit í því að smíða Helstirni þegar lítil orrustuþota getur grandað geimstöðinni, og það með einu hnitmiðuðu skoti.

Þá bendir Shawcross á að alþjóðlega geimstöðin sé nú þegar á sporbraut um jörðu og að það sé afrek í sjálfu sér.

„Ef þið ákveðið að afla ykkur menntunar á sviði vísinda, stærðfræði eða verkfræði þá er mátturinn sannarlega með ykkur. Ekki gleyma því að afl Helstirnisins er lítilfjörlegt í samanburði við máttinn."

„Við búum í framtíðinni," segir Shawcross að lokum og bætir við: „Njótið þess!"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×