Erlent

Áfram eitt barn á mann í Kína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Kínverjar munu ekki láta af stefnu sinni að takmarkarka barnseignir í landinu. Pör í þéttbýli mega aðeins eignast eitt barn og þannig mun það vera áfram.

Vangaveltur hafa verið uppi um að ný stjórnvöld myndu mögulega slaka á takmörkununum sem hafa verið gagnrýndar í auknum mæli undanfarna mánuði. Wang Xia, formaður nefndar um mannfjölda og fjölskyldur í Kína, hefur nú tekið af allan vafa.

Indverski fjölmiðillinn Zeenews hefur eftir Wang að engra breytinga sé að vænta á stefnu kínverskra stjórnvalda á næstunni. Höfuðmarkmiðið sé að halda fæðingartíðninni lágri.

Opinber rannsókn sem gerð var í Kína í október lagði til að stjórnvöld íhuguðu að gera breytingar á stefnu sinni. Var lýst yfir áhyggjum með aldursdreifingu fólks í landinu þar sem þeim eldri fjölgar en þeim ungu fækkar.

Samkvæmt rannsókninni er dánartíðni hærri en fæðingartíðni. Vandamálið hefur meðal annars komið fram í skorti á kínverskum verkamönnum.

Stefnu kínverskra stjórnvalda var komið á koppinn af Kommúnistaflokknum árið 1980. Hún hvetur fólk til þess að gifta sig og eignast börn seint á lífsleiðinni. Fólk í borgum má almennt aðeins eignast eitt barn en fólk í sveitum tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×