Erlent

Hrossakjöt í hamborgurum í verslunum á Bretlandseyjum

Matvælaeftirlit Írlands hefur komist að því að hrossakjöt var notað í hamborgara sem seldir voru í nokkrum af stærstu verslunarkeðjum á Írlandi og Bretlandseyjum.

Hamborgarar þessir voru m.a. seldir í verslunum Iceland keðjunnar sem og í Tesco, Lidl og Aldi. Þessar verslunarkeðjur hafa allar lýst því yfir að búið sé að taka þessa hamborgara úr sölu að því er segir í frétt á vefsíðu BBC um málið.

Fram kemur að í einum af hamborgurunum sem kannaður var í Tesco hafi hlutfall hrossakjöts numið 29%.

Þá segir að í rúmlega 30 öðrum vörutegundum sem áttu að innihalda nautakjöt eins og bökur og kássur hafi svínakjöt verið til staðar í rúmlega 20 tilvikum.

Forstjóri írska matvælaeftirlitsins, prófessorinn Alan Reilly, segir að niðurstöður eftirlitsins sýni að ekki hafi verið hætta á ferðum fyrir almenning. Hinsvegar sé rétt að hafa áhyggjur af málinu. Írar til að mynda borði ekki hrossakjöt yfirhöfuð og niðurstöðurnar séu óásættanlegar fyrir þá sem borða ekki svínakjöt af trúarástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×