Erlent

Tveir fórust í þyrluslysinu í London

Lögreglan í London hefur staðfest að tveir einstaklingar hafi látið lífið þegar þyrla hrapaði til jarðar í Vauxhall hverfinu í morgun.

Annar hinna látnu var flugmaður þyrlunnar en hann var einn í henni.Tveimur mönnum var ekið á sjúkrahús en öðrum þeirra tókst slökkviliðsmönnum að bjarga út úr brennandi bíl sínum á slysstaðnum.

Þyrlan hrapaði til jarðar um átta leytið í morgun eftir að hún rakst á byggingarkrana í hverfinu.  Fjölmennt lið lögreglu og slökkviliðs ásamt fjórum sjúkrabílum var sent á staðinn enda logaði töluverður eldur í þyrlubrakinu og mikinn reyk lagði af honum.

Í frétt um málið á vefsíðu BBC segir að um tíma hafi eldur logað glatt í götunni sem þyrlan skall niður í og að nærliggjandi bygging sem og kyrrstæðir bílar hafi orðið fyrir brunaskemmdum. Kraninn sem þyrlan skall á liggi á hliðinni.

Nærliggjandi járnbrautarstöð og götum var lokað og skapaði það mikið umferðaröngþveiti í hverfinu um stund enda margir á leið til vinnu á þessum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×