Erlent

Tunnulaga klumpa af svínafeiti rak á land í Skotlandi

Sjaldséða hluti rak upp í fjöru í héraðinu Angus á austurströnd Skotlands í vikunni.

Um var að ræða fjóra hvíta tunnulaga klumpa af svínafeiti. Þeir koma nær örugglega úr flaki einhvers af þeim mörgu flutningaskipum sem Þjóðverjar sökktu þarna undan ströndinni á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Feitin var í það góðu ásigkomulagi að einn af þeim sem fann hana sagði að enn væri hægt að steikja sér breskan morgunmat með henni. Tunnurnar sjálfar höfðu hinsvegar fyrir löngu rotnað í sundur.

Fjallað er um málið á vefsíðu BBC. Þar er rætt við einn af eldri borgurunum í héraðinu, Angus McHardy, en hann segir að tunnur sem þessar rak stundum á land á stríðsárunum og þóttu þær mikill hvalreiki þar sem nær ómögulegt var að útvega sér feiti á þeim tíma. Eins og nú rak þær á land í kjölfar þess að stormur gekk yfir héraðið.

McHardy man að svínafeiti rak nokkrum sinnum á land á sjöunda og áttunda áratugnum en þá var hún orðin meira veisla fyrir sjófugla en menn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×