Erlent

Fundu skýr ummerki um stórfljót á Mars

Evrópska geimvísindastofnunin (ESA) hefur tilkynnt að hún hafi fundið skýr ummerki eftir nær 1.600 kílómetra langt stórfljót á Mars.

Vatn mun hafa runnið í töluverðu magni þar fyrir um 1,8 til 3,5 milljörðum ára. Á sumum stöðum hefur fljót þetta verið allt að sex kílómetrar á breidd og allt að 300 metrar á dýpt.

Það var gervihnöttur á vegum ESA sem er á braut um Mars sem náði háskerpumyndum af farvegi þessa fljóts en þær myndir má sjá á heimasíðu stofnunarinnar. ESA hefur gefið þessu fljóti nafnið Reull Vallis.

Fram kemur í tilkynningu frá ESA að svæðið sem fljótið rann um á sínum tíma beri sömu ummerki og sjást á jörðinni eftir að skriðjöklar hafa hopað. Það bendi til þess að fyrir milljörðum árum hafi aðstæður á Mars verið mjög líkar og þær hafa verið á jörðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×