Erlent

Cameron lofar þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild

Kolbeinn Tumi Daðason og Þorbjörn Þórðarson skrifar
Cameron á fundinum í morgun.
Cameron á fundinum í morgun. Nordicphotos/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur lofað breskum kjósendum þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu verði Íhaldsflokkur hans áfram við völd.

Cameron upplýsti um þetta í ræðu sem hann flutti í höfuðstöðvum Bloomberg-fréttaveitunnar í Lundúnum í morgun.  Ræðunnar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu og í breskum fjölmiðlum var látið í veðri vaka að um væri að ræða eina mikilvægustu ræðu sem forsætisráðherrann hefði flutt í embætti, ef ekki á ferlinum.

Cameron lýsti því yfir á dögunum að hann teldi mikilvægt að Bretar endurmætu stöðu sína innan Evrópusambandsins, en hann telur að ráðast þurfi í breytingar á aðildarsamningi Breta.

Bretar eru ekki í myntsamstarfinu en eru meðal 27 aðildarríkja ESB. Cameron sagði í ræðunni að megintilgangur Evrópusambandsins hefði breyst. Tilgangur sambandsins væri ekki lengur að tryggja frið, heldur efnahagslega velmegun ríkja. Hann lagði þunga áherslu á þetta breytta eðli sambandsins í ræðunni en aukin völd hefðu færst til þess frá þjóðríkjum sem kallaði á breytt hagsmunamat og Bretland þyrfti að semja við ESB um breytta aðild.

„Það er tími til kominn að þegnar Bretlands fái að segja sína skoðun," sagði Cameron í ræðu sinni. „Það þarf að fá svör við pólitískum spurningum Breta er varða Evrópusambandið. Ég segi við breskan almenning: Ákvörðunin verður ykkar," sagði Cameron.

Cameron tilkynni um þá ákvörðun að halda sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu fyrir árið 2017. Fyrst myndu Bretar hins vegar semja við ESB um breytta aðild. Hann myndi leggja allt í sölurnar til að tryggja að Bretland yrði áfram í ESB ef það tækist að semja um nýjan aðildarsamning.

Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þjóðverja, sagði inntur eftir viðbrögðum við ræðu Camerons í morgun að Bretar gætu ekki valið sér það besta úr ESB og hafnað öðru. (e. cherry pick).

Þingkosningar verða í Bretlandi 2015. Loforð Camerons um þjóðaratkvæðagreiðslu er skilyrt við að Íhaldsflokkur hans beri sigur úr býtum í kosningunum.

Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, sagði á Twitter í morgun að ef Verkamannaflokkurinn héldi sig við þá afstöðu að Bretlandi væri betur borgið innan ESB þá myndi flokkurinn njóta stuðnings alþjóðlegra stórfyrirtækja.

Vikuritið The Economisthefur fullyrt að útganga Breta úr ESB og þar með af innri markaði sambandsins gæti haft mjög skaðleg áhrif á breskan efnahag. Þannig myndu erlend fyrirtæki flytja starfstöðvar sínar annað og þá gæti slíkt skaðað breskan landbúnað varanlega.

Þingkosningar í Bretlandi fara fram árið 2015. Upptöku af ræðu Cameron má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×