Erlent

Hreingerningarkona saklaus af lestarstuldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/AFP
Kona sem grunuð var um að hafa stolið lest í nágrenni Stokkhólms í Svíþjóð, með þeim afleiðingum að hún keyrði á íbúðarhúsnæði, hefur verið hreinsuð af ásökununum.

Konan slasaðist alvarlega og hefur hún dvalið á sjúkrahúsi í vikunni. Engan í byggingunni sakaði. Áreksturinn átti sér stað árdegis á þriðjudaginn í úthverfi bæjarins Saltsjöbaden nærri Stokkhólmi.

Sænskir saksóknarar staðfesta að búið sé að loka málinu og konan, sem starfaði við hreingerningar, liggi ekki lengur undir grun.

„Allt bendir til þess að um óhapp hafi verið að ræða þar sem ýmsir hlutir og aðstæður urðu til þess að konan gangsetti lestina á meðan hún tók þar til," segir í fréttatilkynningu saksóknara sem AFP-fréttastofan vitnar í.

Arriva og SL, sem reka lestina, gætu átt þurft að sæta rannsókn vegna brota á öryggismálum. Haft er eftir talsmanni Arriva að það væri miður að hreingerningarkonan hefði verið höfð fyrir rangri sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×