Portúgalski varnarmaðurinn Fabio Coentrao er að öllum líkindum á förum frá Real Madrid í sumar. Fyrrverandi liðsfélagi leikmannsins, Richardo Carvalho, sagði frá því í viðtali á dögunum að Coentrao vildi ólmur komast frá liðinu.
Coentrao hefur áður gefið það út að honum hafi aldrei fundist hann velkominn í Madrid en hann var fenginn til liðsins frá Benfica á þrjátíu milljónir evra árið 2011. Það var fyrrverandi stjóri Real Madrid, Jose Mourinho sem fékk leikmanninn til liðsins en Mourinho tók einmitt við Chelsea í sumar.
Taldar eru líkur á því að Coentrao muni annaðhvort fylgja Mourinho til Chelsea eða að hann snúi aftur á heimaslóðir í Benfica.
