Innlent

Uppbygging í Frankfurt er Reykvíkingum áminning

BBI skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, stimplar sig inn í umræðuna um uppbygginguna við Ingólfstorg og Kvosinni á bloggsíðu sinni í dag. Hann rifjar upp uppbyggingu í gamla miðbæ Frankfurt eftir síðari heimsstyrjöldina.

Bærinn, sem var einn heillegasti miðaldabær í Evrópu, var þurrkaður út í loftárásum árið 1944. Uppbyggingin var miðuð við tísku eftirstríðsáranna og á áttunda áratugnum var farið að reisa gríðarháa skýjakljúfa í borginni.

Upp úr 1980 eftir að skýjakljúfar höfðu sprottið upp var ákveðið að endurreisa nokkur gamaldags hús við Römer-torg. „Húsin og torgið sem þau standa við urðu nánast samstundis helsta tákn borgarinnar enda þótt Frankfurt væri þá þegar orðin þekkt sem „Manhattan Evrópu" vegna skýjakljúfanna," segir Sigmundur á blogginu.

Borgaryfirvöld ákváðu nýlega að endurbyggja hluta gamla bæjarins. Til þess þurfti að rífa stjórnsýsluhús frá árinu 1974 og hætta við nútímalega vinningstillögu um skipulag á svæðinu. „Eftirspurn eftir endurgerðu húsunum fór fram úr væntingum þ.a. það stefnir í að þau verði a.m.k. tvöfalt fleiri en upphaflega var ráðgert," segir Sigmundur.

Þessi saga Sigmundar er innlegg í umræðuna á skipulagi við Ingólfstorg. Nýlega kom fram vinningstillaga um nútímalegt skipulag á svæðinu með fjölmörgum nýbyggingum. Sigmundur vill minna á að þegar upp var staðið var gamaldags bæjarmynd íbúum Frankfurt kærari en nútímalegir skýjakljúfar og gerði meira fyrir ímynd borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×