Innlent

Segir skýringu Bjarna bónda vera tómt rugl

Myndin er tekin á Brúarreykjum 15. nóvember, viku eftir síðustu eftirlitsferð héraðsdýralæknis. „Þá var búið að þrífa og allt var í lagi,“ sagði bóndinn í Fréttablaðinu í gær. Matvælastofnun taldi ekki nóg að gert.
Myndin er tekin á Brúarreykjum 15. nóvember, viku eftir síðustu eftirlitsferð héraðsdýralæknis. „Þá var búið að þrífa og allt var í lagi,“ sagði bóndinn í Fréttablaðinu í gær. Matvælastofnun taldi ekki nóg að gert. Mynd/Matvælastofnun
Forgangsverk að bæta aðstöðu kúnna á Brúarreykjum, segir framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Vesturlands. Ráðunautur hafi viljað svipta búið leyfi í fyrra.

„Hann getur ekki neinum öðrum um kennt en sjálfum sér,“ segir Guðmundur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsamtaka Vesturlands, um stöðu bóndans á Brúarreykjum sem sviptur var starfsleyfi fyrir kúabúi sínu.

Bjarni Bærings Bjarnason á Brúarreykjum skýrði í Fréttablaðinu í gær hrikalega stöðu á búi sínu þegar héraðsdýralæknir kom þangað í eftirlit 8. nóvember. Þá stóðu kýrnar, sem eru níutíu í sextíu gripa fjósi, í eigin mykju upp á legg. Sagðist Bjarni hafa verið að aðstoða sjö eða átta kýr við að bera í tvo sólarhringa þar á undan og ekki hafa haft tíma til að hreinsa frá skepnunum.

„Það er bara rugl,“ segir Guðmundur um skýringar Bjarna. „Þetta er ekkert sem gerðist á tveimur sólarhringum, það er alveg á hreinu.“

Að sögn Guðmundar hefur lengi verið ófremdarástand á Brúarreykjum. Fjósið hafi verið í ólestri árum saman. Ráðunautur frá Búnaðarsambandi Vesturlands hafi heimsótt bæinn í fyrra og þá hafa viljað að lokað yrði á reksturinn. „Það var að minnsta kosti ástæða til þess þá. Honum var gefinn frestur en hann gerði ekki neitt og hefur aldrei gert neitt sem hann hefur verið beðinn um að laga.“

Guðmundur segist ekki sjálfur hafa skoðað ástandið á Brúarreykjum. „Ég held að þær hafi fengið nóg að éta en það er náttúrulega ljóst að þeim líður illa,“ segir Guðmundur og vísar til þess hversu yfirgengileg fljótandi mykjan sé. „Kýr þurfa að vera á þurrum legubásum. Yfirleitt er það þannig að legubásarnir eru þurrir og menn setja spæni eða sag undir kýrnar.“

Bættur aðbúnaður kúnna á Brúarreykjum er nú til umræðu. Guðmundur segir sveitarfélagið Borgarbyggð þurfa að koma að því máli en að Búnaðarsamtökin muni aðstoða. Þótt gripirnir séu of margir sé bærinn í sláturbanni og því ekki hægt að fækka þeim þannig.

„Ég býst við að fjósið verði hreinsað og lagað þannig að þær geti verið þarna áfram en það þyrfti eitthvað af gripum að fara frá,“ segir Guðmundur sem kveður alveg óljóst hvort einhverjir vilji taka við umframgripunum. Möguleiki sé að farga einhverjum skepnum en það sé þó yfirleitt ekki gert nema þær séu illa haldnar.

Aðspurður fullyrðir Guðmundur að ástandið á Brúarreykjum sé einsdæmi, að minnsta kosti í hans héraði. Dýralæknir skoði fjós reglulega. „Ég er ekki að segja að það sé ekki einhvers staðar slæmt en það er mjög óvíða sem svona kemur upp. Það getur vel verið að einhverjir séu á frestum út af einhverjum tæknilegum atriðum en ekki vegna aðbúnaðar beint. Ég vil segja að yfirgnæfandi meirihluti kúabúa sé í lagi hér.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×