Innlent

Dæmi um að börnin séu misnotuð hér

Nokkur mál er varða útlensk börn sem komið hefur verið með hingað til lands á fölsuðum pappírum hafa ratað inn á borð Mannréttindaskrifstofu Íslands á undanförnum árum. Í sumum málunum hafa börnin verið misnotuð eftir að þau komu hingað til lands. Dæmi eru um að þau vilji losna af heimilum forráðamanna sinna eftir að hafa dvalið á Íslandi í nokkurn tíma.

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofu, segir að þegar upp komist um málin haldi fólkið því í flestum tilvikum fram að barnið sé skylt öðru þeirra. Hún segir aldur barnanna sem koma hingað til lands á fölskum forsendum mismunandi. Yfirleitt séu þau ung, tveggja eða þriggja ára, en sum enn stálpaðri. Hún man eftir þremur til fjórum löndum sem börnin hafa komið frá.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði nú mál pars sem kom með ungabarn til landsins og lagði fram alla pappíra þess efnis að þau væru foreldrar þess þegar sótt var um dvalarleyfi fyrir það. Þegar óskað var eftir DNA-rannsókn viðurkenndu þau að vera ekki raunverulegir foreldrar barnsins. Fleiri mál af sama toga eru til skoðunar.

Margrét segir Ísland bundið fjölda alþjóðlegra mannréttindasamninga og að stjórnvöldum sé fyrst og fremst skylt að vernda réttindi barnanna.

„Það hafa komið upp dæmi þar sem börn hafa verið misnotuð, líður illa og vilja komast burt af heimilinu þegar þau eru búin að vera á landinu í einhvern tíma," segir hún. „En í mörgum tilvikum virðist eins og verið sé að fara vel með þau og sambandið milli foreldra og barns sýnist gott og fallegt." Hún segir þessi mál þó alltaf flókin þar sem fólkið hefur brotið lög.

Nokkur mál koma upp hér á landi á hverju ári þar sem grunur leikur á að fólk, sem segist foreldrar barns, sé það ekki. Útlendingastofnun leitar ekki sérstaklega að málum sem þessum og grunar að tilvikin séu mun fleiri.

- þeb, sv /Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.