Innlent

Rjúpnaveiðitímabilið verður ekki framlengt

kristjan@frettabladid.is skrifar
Rjúpa Rjúpnaveiðar verða ekki framlengdar í ár samkvæmt ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra. Fréttablaðið/GVA
Rjúpa Rjúpnaveiðar verða ekki framlengdar í ár samkvæmt ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra. Fréttablaðið/GVA
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun ekki framlengja rjúpnaveiðitímabilið í ár vegna veðurs þrátt fyrir fjölmargar óskir þess efnis.

Skotveiðifélag Íslands (Skotvís) hafði meðal annars farið þess á leit við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og samráðshóp um rjúpnaveiðar, að veiðidögum yrði fjölgað. Ástæðan er að aðeins hefur verið hægt að stunda veiðar í tvo til þrjá daga af þeim sjö sem veiðar hafa verið leyfðar hingað til vegna óveðurs.

„Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram að höfðu samráði við Umhverfisstofnun að ekki verða gerðar frekari breytingar á reglum um rjúpnaveiðar á þessu ári," segir á vef ráðuneytisins.

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, segir að búið hafi verið að ákveða þessa daga og að veður breyti ekki þeim forsendum. „Veður hefur alltaf haft áhrif á rjúpnaveiðar á Íslandi," segir hún.

Bergþóra Njála segir að þó að veður hafi verið slæmt á einhverjum stöðum á landinu sé ekki loku fyrir það skotið að fólk hafi komist til veiða í öðrum landshlutum.

„Ef veiðitímabilið yrði framlengt myndi það þýða aukið álag á rjúpnastofninn umfram það sem ætlað var þegar þessar reglur voru settar," segir Bergþóra Njála.

Elvar Árni Lund, formaður Skotvís, er afar ósáttur við ákvörðun ráðuneytisins. „Þetta er óbilgirni hjá ráðherra," segir hann.

„Þetta eru mikil vonbrigði því það er ekkert tiltökumál að bæta við nokkrum dögum við núverandi reglugerð ráðherra og auglýsa þá," segir Elvar Árni.

„Afstaða Umhverfisstofnunar er skiljanleg að því leyti að hún vill ekki að það sé verið að hringla með fjölda veiðidaga til þess að eiga auðveldara með að leggja mat á áhrif veiðanna. Núverandi fyrirkomulag er samt ekki nema ársgamalt og áhrif skotveiða þetta árið verða alveg örugglega ekki þau sömu og í fyrra þegar það var miklu auðveldara að ganga til veiða," segir Elvar Árni.

Samkvæmt reglugerð ráðuneytisins eru rjúpnaveiðar leyfðar níu daga á ári og eru tveir dagar eftir af tímabilinu. Skotvís hefur lagt til tillögur að breyttu veiðistjórnunarkerfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×