Innlent

Íslendingar þróa skólamáltíðir

Beðið eftir matnum Nemendur við Kankhande-skólann í Malaví biðu á föstudag eftir fyrstu heimaræktuðu skólamáltíðinni, maísgraut og mangói. Mynd/ Gunnar Salvarsson
Beðið eftir matnum Nemendur við Kankhande-skólann í Malaví biðu á föstudag eftir fyrstu heimaræktuðu skólamáltíðinni, maísgraut og mangói. Mynd/ Gunnar Salvarsson
Þróunarsamvinnustofnun Íslands tekur þátt í nýju verkefni sem felur í sér að bjóða upp á skólamáltíðir í Malaví sem eru ræktaðar í heimabyggð.

Verkefnið snýr að nemendum í sunnanverðu Malaví og var formlega kynnt í einum skólanna þar í síðustu viku. Það felur í sér dreifingu á góðum, heimaræktuðum mat. Í sameiginlegri tilkynningu frá ríkisstjórn Malaví, Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og Þróunarsamvinnustofnun segir að slíkt bæti ekki eingöngu hag skólabarna heldur gefi það smábændum kost á því að selja framleiðslu sína á öruggum markaði.

Vilhjálmur Wiium, umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar, segir að með því að bjóða upp á heimaræktaðar máltíðir komi fleiri nemendur í skólana, brottfall verði minna og nemendum muni líða betur og standa sig betur í skólanum.

Haft er eftir Euince Kazember, menntamálaráherra Malaví, að máltíðirnar feli í sér sjálfbæra leið til þess að laða börn í skóla, einkum stúlkur, jafnframt því sem landbúnaður í héraðinu sé efldur.

Baton Osmani, aðstoðarframkvæmdastjóri Matvælaaðstoðar SÞ í Malaví, segir frumkvæðið leggja drög að máltíðum til langframa sem komi sér vel á tímum þar sem matvælaskortur er yfirvofandi hjá tæplega tveimur milljónum íbúa landsins.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×