Innlent

Kjarnorkan komin á rafmagnsreikninginn

kjarnorkureikningurinn Samkvæmt reikningnum eru 5% af rafmagni notandans framleidd með kjarnorku.
kjarnorkureikningurinn Samkvæmt reikningnum eru 5% af rafmagni notandans framleidd með kjarnorku.
Rafmagnsnotanda sem hafði samband við Fréttablaðið brá heldur í brún þegar hann fékk ársyfirlit frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fyrir árið 2011. Þar var yfirlit yfir uppruna raforkunnar eftir orkugjöfum og sjá mátti að endurnýjanleg orka sæi fyrir 89 prósentum rafmagnsins og jarðefnaeldsneyti sex prósentum. Afgangurinn, fimm prósent, væri hins vegar framleiddur með kjarnorku.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir að þetta þýði þó ekki að kjarnorkuver séu komin í notkun á Íslandi.

„Á síðasta ári fór Landsvirkjun að selja græn vottorð og við það tekurðu á móti sölusamsetningu orkunnar í landinu sem þú selur til. Þetta segir því ekkert til um framleiðslu orkunnar hér, heldur bara þennan söluhluta."

Um helmingur þeirrar raforku sem OR selur á almennum markaði er keyptur af Landsvirkjun. Sala síðarnefnda fyrirtækisins á grænum vottorðum kemur því kjarnorkunni á reikninga OR.

Grænt vottorð er staðfesting á að orkuframleiðslan sé með endurnýjanlegum hætti. Fyrirtæki geta keypt þau og talið fram þegar kemur að mengunaruppgjöri.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×