Innlent

Rammaáætlun brátt úr nefnd

Mörður Árnason
Mörður Árnason
Þingsályktunartillaga um rammaáætlun verður líklega afgreidd úr umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í næstu viku og tekin til síðari umræðu í þinginu vikuna þar á eftir.

Þetta segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður, sem telur ekkert hafa komið fram við vinnu nefndarinnar sem gefi tilefni til breytinga á tillögunni.

Umhverfis- og samgöngunefnd hélt í gær sameiginlegan fund með atvinnuveganefnd um rammaáætlun. Þetta var fimmti fundur nefndarinnar um tillöguna sem lögð var fram öðru sinni á þingi um miðjan september. Fyrstu umræðu um tillöguna lauk þann 27. september og hefur umhverfis- og samgöngunefnd haft hana til meðferðar síðan.

„Við í nefndinni höfum enn ekki rætt formlega hver niðurstaða okkur verður en ég tel að hingað til hafi ekkert nýtt komið fram við vinnuna sem geti breytt viðhorfum manna til tillögunnar," segir Mörður og heldur áfram: „Ég tel því mestar líkur á að við leggjum til stuðning við óbreytta tillögu."

Spurður hvort hann telji þingsályktunartillöguna njóta meirihlutastuðnings á þingi óbreytta svarar Mörður:

„Það hefur ekki verið kannað og kemur einfaldlega í ljós. Ég tel hins vegar góður líkur á að þetta viðhorf meirihluta nefndarinnar endurspeglist svo í þinginu."

Í þingsályktunartillögunni um Rammaáætlun er að finna tillögur að skiptingu virkjunarkosta hér á landi í verndar-, nýtingar- og biðflokk. Sú skipting sem þar er lögð til hefur hins vegar verið umdeild í þinginu og tókst af þeim sökum ekki að klára málið á þinginu í vor eins og til stóð.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×