Innlent

Leggja til 300.000 tonna kvóta

á loðnuvertíð Íslenskar útgerðir veiddu 585 þúsund tonn á síðustu vertíð.fréttablaðið/óskar friðriksson
á loðnuvertíð Íslenskar útgerðir veiddu 585 þúsund tonn á síðustu vertíð.fréttablaðið/óskar friðriksson Vísir/Óskar Friðriksson
Hafrannsóknastofnunin leggur til að heildaraflamark loðnu á vertíðinni 2012/2013 verði samtals 300 þúsund tonn. Heildarkvótinn á síðustu vertíð varð 765 þúsund tonn.

Haustmælingar á loðnustofninum fóru fram á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni dagana 3.-20. október með það meginmarkmið að mæla stærð veiðistofns loðnu og meta magn ungloðnu.

Miðað við þessar mælingar og forsendur um náttúruleg afföll og vöxt fram að hrygningu má gera ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 720 þúsund tonn verði ekkert veitt. Að teknu tilliti til aflareglu sem gerir ráð fyrir að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar á hrygningartíma, reiknast veiðistofn loðnu því rúm 300 þúsund tonn.

Ríflega þriðjungur hrygningarstofnsins samkvæmt mælingunni er þriggja ára og eldri loðna, en það hlutfall er með því hæsta sem mælst hefur. Ástand loðnunnar var einkar gott og meðalþyngd bæði tveggja og þriggja ára loðnu óvenju há.

Hafrannsóknastofnunin mun mæla veiðistofn loðnu að nýju eftir áramótin til samanburðar og mun endurskoða tillögur um heildaraflamark gefi niðurstöður þeirra mælinga tilefni til þess. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×