Innlent

Byggingin frekar sögufölsun en tilgátuhús

í Skálholti Þorláksbúð stendur nær Skálholtskirkju en gott þykir, að mati margra. fréttablaðið/
í Skálholti Þorláksbúð stendur nær Skálholtskirkju en gott þykir, að mati margra. fréttablaðið/
Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður húsafriðunarnefndar, gagnrýnir allan málatilbúnað við byggingu Þorláksbúðar við hlið Skálholtskirkju í ársskýrslu nefndarinnar fyrir árið 2011.

Hann spyr hver tilgangurinn sé að taka þá áhættu að skaða umhverfi Skálholts með byggingu húss sem „alls ekki telst vera tilgátuhús" og ekki hafi verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að jafnstórt hús af þessari gerð hafi staðið áður á þessum stað og „má því halda fram að sé sögufölsun".

Nikulás Úlfar spyr hvað mönnum gangi til „þegar vaðið er áfram með svo viðkvæmt mál á stað sem er tvímælalaust meðal merkustu staða á Íslandi með hliðsjón af menningarsögu þjóðarinnar […]."

Í röksemdafærslu sinni segir Nikulás að allar viðvaranir og umsagnir fagaðila hafi verið hunsaðar og nefnir til sögunnar, auk húsafriðunarnefndar, Arkitektafélag Íslands og Skipulagsstofnun.

Vegna málsins sagði Hjörleifur Stefánsson, formaður húsafriðunarnefndar, af sér, en ástæða afsagnarinnar var ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra um að fara ekki að tillögu húsafriðunarnefndar um friðun Skálholtskirkju og Skálholtsskóla. Ráðherra hefur ekki áður gengið gegn tillögum húsafriðunarnefndar um friðun. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×