Innlent

Jafngildir milljón í kjaraskerðingu

SAmstaða Lífeindafræðingar, sem eitt sinn kölluðust meinatæknar, mótmæltu bágum kjörum í gær. 
Fréttablaðið/GVa
SAmstaða Lífeindafræðingar, sem eitt sinn kölluðust meinatæknar, mótmæltu bágum kjörum í gær. Fréttablaðið/GVa
Lífeindafræðingar á Landspítalanum eru orðnir langþreyttir á áralöngum launalækkunum og krefjast úrbóta. Þetta segir Edda Sóley Óskarsdóttir, talsmaður lífeindafræðinga, en þeir stóðu fyrir samstöðufundi í gær.

Helstu kröfur eru annars vegar að stofnanasamningur við stéttina verði endurskoðaður, í fyrsta sinn frá árinu 2006.

„Svo lögðum við líka fram tillögu um að byrjunarlaun lífeindafræðings, sem eru 260 þúsund á mánuði í dag, hækki um hundrað þúsund. Það er síst of hátt miðað við að í skipulagsbreytingum síðustu ára höfum við tekið á okkur launalækkanir og aukið vinnuálag sem jafngildir tæpri milljón í tekjuskerðingu á ári," segir Edda Sóley.

Hún bætir því við að staðan í stéttinni sé orðin váleg.

„Unga fólkið flýr og það er engin nýliðun því fólkið vill ekki vinna fyrir þessi skítalaun allan ársins hring, allan sólarhringinn. Þess vegna er staðan orðin sú að meðalaldur hjá okkur er rúm fimmtíu ár."

Edda Sóley segir að talsverður kurr hafi komið upp í tengslum við umræðuna um fyrirhugaða launahækkun forstjóra Landspítalans.

„Þegar þetta kom upp varð ákveðin viðhorfsbreyting hjá fólki, sem áður hafði unnið út frá því að vera þátttakandi í liði. Þarna fann ráðherra hins vegar fjármuni fyrir einn starfsmann, en þá hlýtur að vera til aðeins fyrir okkur líka. Það er bara eðlilegt og sjálfsagt." - þj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×