Innlent

Brigsl gengu á víxl á hitafundi í Kópavogi

Ármann Kr. Ólafsson
Sagði Hjálmari Hjálmarssyni ekkert hafa orðið úr verki.
Ármann Kr. Ólafsson Sagði Hjálmari Hjálmarssyni ekkert hafa orðið úr verki.
„Að gefnu tilefni vill formaður bæjarráðs minna fundarmenn á að hafa í huga háttvísi í bókunum sínum og gæta að því að niðrandi ummæli sem geta talist beinast að persónum eru fulltrúum í bæjarráði ósæmandi," bókaði Rannveig Ásgeirsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, á fundi á fimmtudaginn var.

Tilefni bókunar bæjarráðsformannsins voru orðahnippingar Hjálmars Hjálmarsson úr Næstbesta flokknum og Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra úr Sjálfstæðisflokknum. Fyrst var rætt um tillögur starfshóps um Kópavogs-tún, Kópavogsbæinn og Kópavogshælið og sakaði Hjálmar bæjarstjóra um „ótrúlegt sleifarlag" við úrvinnslu málsins.

„Því skal haldið til haga að á vakt Hjálmars Hjálmarssonar þar sem hann var í meirihluta í ríflega tuttugu mánuði þá gerðist nákvæmlega ekki neitt í þessu máli annað en að leggja til að stofnuð yrði nefnd," bókaði Ármann og bætti við að Hjálmari hafi ekkert orðið úr verki þegar hann fór fyrir starfshópi um leiðarkerfi strætós og fundarsköp bæjarstjórnar.

Hjálmar gerði athugasemdir við „orðbragð bæjarstjóra í sinn garð" í fundarhléi. „Að tala um sleifarlag var niðrandi í þessu samhengi þar sem hratt hefur verið unnið í þessu máli og hraðar heldur en Hjálmar kynntist þegar hann var í meirihluta," svaraði Ármann en Hjálmar sagði þetta staðleysu.

Þá gagnrýndi Hjálmar aðgerðaleysi varðandi strætisvagnaskýli. „Það er ámælisvert að bæjarstjóri skuli ekki hafa fylgt eftir ákvörðunum bæjarráðs hvað þetta varðar og lýsir vel sinnuleysi meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins."

Þannig gengu bókanir á víxl, jafnvel eftir að formaður bæjarráðs greip inn í með fyrrgreindum hætti.- gar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×