Innlent

Aldrei heitara í sumar en í gær

Eftir nokkra velkomna rigningardaga lék veðurblíðan við Reykvíkinga í gær.
Eftir nokkra velkomna rigningardaga lék veðurblíðan við Reykvíkinga í gær. fréttablaðið/gva
Hitastigið í Reykjavík náði 20,9 stigum á hitamæli Veðurstofunnar. Það er í fyrsta sinn í sumar sem hitinn fer yfir tuttugu gráður. Veðurblíðan lék við borgarbúa í gær eins og flesta aðra daga í sumar og útlit er fyrir það sama næstu daga.

Hæsti hiti sem mældur hefur verið í Reykjavík er 24,8 stig 11. ágúst 2004. Hitinn fór einmitt hæst í 24,8 stig á Þingvöllum í gær þó hitametið þar sé öllu hærra.

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir ástæðu veðurblíðunnar vera norðaustanáttina, sem er mjög hagstæð íbúum á suðvesturhorninu. Hann segir framhaldið verða svipað þótt hitinn verði ekki eins hár. Um helgina verði til dæmis áfram milt veður og hitinn slær hátt í tuttugu gráðurnar þegar best lætur.

Á Akureyri verður veðrið einnig gott áfram, aðeins svalara en á suðvesturhorninu. Rigningarbakkar liggja svo úti fyrir suðausturströndinni en munu að öllum líkindum ekki koma til með að spilla blíðunni mikið.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×