Innlent

Súðavík þarf að bera kostnað af eldunum

Slökkviliðsmenn hafa barist við eldana í meira en viku. Rigningar og logn hjálpuðu mikið við slökkvistarf um helgina.mynd/Hafþór Gunnarsson
Slökkviliðsmenn hafa barist við eldana í meira en viku. Rigningar og logn hjálpuðu mikið við slökkvistarf um helgina.mynd/Hafþór Gunnarsson
Súðavíkurhreppur ber allan kostnað af slökkvistarfi í Laugadal í Ísafjarðardjúpi. Þar hafa logað eldar síðan fimmtudaginn 2. ágúst og eru um tíu hektarar lands brunnir og auðnin ein. Hátt í sextíu menn hafa barist við eldana síðan þeirra varð vart.

"Það er allt brunnið," segir Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðarvíkurhreppi. "Þarna brennur næstum allt sem getur brunnið. Undir eru klappir og á miklu svæði er allur eldsmatur búinn. Eftir stendur hrjóstrugt svæði."

Ómar gerir ráð fyrir að nú sé hægt að slökkva eldana endanlega því rignt hefur um helgina og vind hefur lægt. "Nú teljum við að við séum á lokasprettinum og vorum við til dæmis ekki með vakt í fyrrinótt. Það skiptir sköpum að það hafi lyngt."

Hann segir næstu skref vera að kanna hvað gerðist og fara yfir kostnaðinn við slökkvistarfið. Þá verður kannað hvort eitthvað fáist úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga upp í þennan kostnað.

"Í fyrsta lagi viljum við komast að því hvað gerðist þarna og hvernig það vildi til, gáleysi eða annað. Ég tel að við förum í það í næstu viku að elta það uppi. Það eru vitni sem hittu þá sem við teljum að hafi kveikt þennan eld. Við teljum mikla ástæðu fyrir því að komast að upprunanum. Ég tel að við séum komin með kostnað upp á sjö milljónir. Það er auðvitað verulega íþyngjandi fyrir lítið sveitarfélag með skatttekjur upp á 70 milljónir."

Því muni Súðavíkurhreppur láta reyna á 11. grein reglugerðar um jöfnunarsjóð. Þar er heimild til innanríkisráðuneytisins til að veita sveitarfélögum aukafjármagn þurfi þau að bera mikinn kostnað vegna óvæntra en lögboðinna verkefna.

"Við teljum allar forsendur fyrir því að þessi 11. grein verði virkjuð í okkar tilfelli. Okkur er ekki kunnugt um að þessi grein hafi áður verið nýtt," segir Ómar. Beiðni hefur ekki verið lögð inn formlega en málið er nú þegar komið óformlega inn á borð ráðherra.

birgirh@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Engin viðbragðsáætlun til staðar

?Slökkviliðin hafa farið í gegnum gríðarlegt lærdómsferli en engin viðbragðsáætlun var til staðar sem hægt var að vinna eftir. Eftir situr mikill lærdómur um það hvernig á að takast á við jarðvegselda.? Meðal annars var notast við haugsugur, þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt og grafinn var skurður til að hamla útbreiðslu eldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×