Innlent

Bæjarfulltrúi ekki aðili að skuldamáli Mosfellsbæjar

Mosfellsbær samdi við verktaka um mikla uppbyggingu í Helgafellslandi árið 2006. Áformin gengu ekki eftir nema að litlum hluta og bærinn sat uppi með sjálfskuldarábyrgð vegna samningsins. Fréttablaðið/GVA
Mosfellsbær samdi við verktaka um mikla uppbyggingu í Helgafellslandi árið 2006. Áformin gengu ekki eftir nema að litlum hluta og bærinn sat uppi með sjálfskuldarábyrgð vegna samningsins. Fréttablaðið/GVA
StjórnsýslaInnanríkisráðuneytið hefur vísað frá kæru Jóns Jósefs Bjarnasonar, fulltrúa minnihluta Íbúahreyfingarinnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, vegna afgreiðslu bæjarráðs á skuldamáli. Ráðuneytið segir bæjarfulltrúa ekki hafa kærurétt þar sem hann eigi ekki aðild að málinu.

"Mér finnst þetta út í hött. Ráðuneytið á að verja lýðræðið og með þessu eru þeir að standa gegn því. Þeir eru að taka af bæjarfulltrúunum réttinn til að setja fram formlega skoðun á málinu," segir Jón.

Bæjarráð Mosfellsbæjar ákvað á fundi 21. júní að fela bæjarstjóra að semja um greiðslu til Landsbankans á um 250 milljónum króna. Um er að ræða sjálfskuldarábyrgð sem bærinn gekkst í fyrir verktaka vegna áforma um uppbyggingu í Helgafellslandi.

Samkvæmt lögfræðiáliti sem unnið var fyrir bæinn var óheimilt að gangast í slíka sjálfskuldarábyrgð, eins og fjallað hefur verið um í Fréttablaðinu. Því hefur Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, mótmælt og vísað til þess að ábyrgðin falli undir daglegan rekstur sveitarfélagsins.

Í kæru Jóns er vísað til sveitarstjórnarlaga, þar sem segir að sveitarstjórn ein geti tekið endanlegar ákvarðanir sem varði verulegar fjárhagslegar skuldbindingar. Því segir Jón augljóslega ólöglegt að afgreiða málið á fundi bæjarráðs.

Jón segir að með því að fullafgreiða málið á fundi bæjarráðs sé þeim bæjarfulltrúum sem ekki eigi sæti þar haldið frá því að tjá sig um málið. Bæjarstjórnin er í sumarfríi um þessar mundir en kemur aftur saman í ágúst. Jón segir ekkert liggja á að afgreiða málið, vel hefði mátt bíða fram í ágúst með að taka lokaákvörðun um afgreiðslu þess.

Innanríkisráðuneytið tekur ekki afstöðu til þess hvort kæruefnið sé réttmætt heldur vísar kærunni frá. Jón segir að niðurstöðu ráðuneytisins verði vísað til umboðsmanns Alþingis. "Ég vænti þess að hann snúi þessari ákvörðun, ég trúi ekki öðru."

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×