Innlent

Bæta starfið á gæsluvellinum í Setbergi

Gæsluvöllurinn í Setberginu hefur verið vel sóttur í allt sumar þrátt fyrir frásögn móður um að börn séu látin afskipt.
Gæsluvöllurinn í Setberginu hefur verið vel sóttur í allt sumar þrátt fyrir frásögn móður um að börn séu látin afskipt. fréttablaðið/villi
„Nokkrar úrbætur voru gerðar á gæsluvellinum,“ segir Axel Guðmundsson, yfirflokkstjóri Vinnuskóla Hafnarfjarðar, um gæsluvöllinn í Setbergshverfi í Hafnarfirði. Gæsluvöllurinn heyrir undir Vinnuskólann.

Fréttablaðið greindi í gær frá óánægju móður með gæsluvöllinn. Konan sagði börnin afskipt á vellinum en sjálf kom hún að dóttur sinni þar sem þrír drengir höfðu umkringt hana án þess að nokkur skipti sér af.

„Tveimur starfsmönnum hefur verið bætt við starfslið gæsluvallarins. Svo á jafnvel að aldursskipta svæðinu eitthvað yfir mesta annatímann. Við höfum góða aðstöðu þarna, tvær leikskólalóðir sem nýttar verða til að skipta þessu eitthvað niður,“ segir Axel.

Hann segist ekki hafa fundið fyrir óánægju með gæsluvöllinn í sumar heldur hafi fólk þvert á móti verið ánægt með starfsemina.

„Gæsluvöllurinn væri ekki alltaf yfirfullur ef fólki líkaði ekki við þjónustuna. Í dag höfum við bara heyrt góðar sögur. Fólk hefur hringt hingað eða farið á gæsluvöllinn og lýst yfir ánægju sinni.“- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×