Innlent

21 hringur fyrir gott málefni

Baldvin Vigfússon hefur í dag áheitasöfnun í minningarsjóð Sigrúnar Mjallar og mun leika 21 golfvöll á þrettán dögum.
Baldvin Vigfússon hefur í dag áheitasöfnun í minningarsjóð Sigrúnar Mjallar og mun leika 21 golfvöll á þrettán dögum. Fréttablaðið/DAníel
Baldvin Vigfússon hefur í dag hringferð um landið til styrktar góðu málefni.

Baldvin mun leika 21 golfhring á þrettán dögum til styrktar minningarsjóði frænku sinnar, Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttur, sem lést aðeins sautján ára að aldri af of stórum lyfjaskammti. Sjóðurinn styður skapandi verkefni ungmenna á meðferðarheimilum.

Baldvin segir sér hafa runnið blóðið til skyldunnar að styrkja sjóðinn.

„Ég fékk fríkort á golfvelli í jólagjöf og ætlaði fyrst að taka sumarið í þetta, en varð svo hugsað til Sigrúnar frænku minnar og ákvað að nýta tækifærið til að styrkja sjóðinn hennar. Þetta er mér mikið hjartans mál.“ Fyrsta hringinn leikur hann á Víkurvelli, en þann síðasta á Hvammsvíkurvelli. Varðandi spilamennskuna segist Baldvin hingað til hafa tekið golfið í skorpum. „Ég er nú kannski ekki sá allra besti,“ játar hann og bætir því við að hann hafi tekið þátt í móti á dögunum og ekki gengið alls kostar vel. Átakið snúist þó um allt annað en það.

Baldvin bætir því við að áhugasömum sé frjálst að taka þátt og leika með honum hring, gegn framlagi í sjóðinn. Annars er allar upplýsingar um átakið og framvinduna að finna á Facebook-síðu þess; „21 hringur“.

Áheitum er safnað á reikning 549-14-401550 og kennitalan er 270783-4149.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×