Innlent

Gjafir til guðshúsa setja sóknir í vanda

Skúli S. Ólafsson segist vel skilja þá sem sjái á eftir steindu gluggunum en þeir verða teknir niður í næsta mánuði.
Skúli S. Ólafsson segist vel skilja þá sem sjái á eftir steindu gluggunum en þeir verða teknir niður í næsta mánuði.
Brýnt er að koma á ákveðnu vinnulagi varðandi gjafir og innkaup fyrir kirkjur landsins, segir Páll V. Bjarnason, formaður húsafriðunarnefndar. Hann segir að í flestum sóknum landsins sé kirkjunnar fólk í vandræðum með gjafir og innkeypta muni sem sýnt þykir að henti kirkjunum ekki eða stingi hreinlega í stúf.

Til dæmis hafi það víða brunnið við að keyptir hafi verið munir samkvæmt einhverri tískubylgju sem síðan séu til vansa. „Til dæmis er engu líkara en einhver sölumaður hafi gert víðreist á níunda eða tíunda áratugnum og selt kirkjum neonkrossa en nú held ég að flestir séu sammála um að að þú setjir ekki neonkross á gamla kirkju úti á landi,“ segir hann.

Hann segir að breyta þurfi lögum svo að sérfræðingar komi að og leiðbeini gefendum og sóknarnefndum í þessum efnum. „Einmitt vegna þess að allt sem gert er í kirkjum skiptir almenning svo miklu máli. Síðan er afar erfitt að fjarlægja hluti úr kirkjum þegar fólk er búið að gefa þá af heilum hug.“

Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur Keflavíkurprestakalli, þekkir þennan vanda vel en í næsta mánuði verða steind glerlistaverk sem staðið hafa í gluggum Keflavíkurkirkju fjarlægð og því komið fyrir í geymslu. Hefur það vakið sterk viðbrögð hjá mörgum sóknarbarnanna. „Og ég skil það sjónarmið ósköp vel,“ segir Skúli. Þetta er liður í því að koma kirkjunni í upprunalegra horf fyrir aldarafmæli hennar árið 2015 en Skúli segir einnig aðrar ástæður fyrir breytingunum. Til dæmis sé ekki hægt að opna þessa steindu glugga og hafi af þeim sökum oft verið þungt loft innan dyra.

„Á sólskinsdögum hefur meira að segja orðið svo loftlítið að það hefur liðið yfir sóknarbörn í miðri guðsþjónustu. Þannig að nú þykir mörgum tími til kominn að ferskur blær fái að leika um kirkjuna,“ segir Skúli. Einnig segir hann að glerlistaverkið hafi enga skírskotun til sögu kirkjunnar. „Þess misskilnings hefur líka gætt að við séum að skipta um gler en svo er ekki því þetta glerlistaverk var einfaldlega sett innan við rúðuna. Nú verður þetta tekið niður svo sólin lýsi kirkjuna upp en það er ekki þar með sagt að ekki verði hægt að setja verkið upp aftur.“jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×